Félagið Miðbæjarveldið ehf., sem rak skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur, var úrskurðað gjaldþrota í desember á síðasta ári. Skiptum er lokið á búinu og var kröfum lýst að upphæð rúmlega 8 milljónir króna. Engar eignir fundust í búinu.

Litlar upplýsingar er að finna um félagið í Fyrirtækjaskrá, aðrar en stofngögn og tilkynningu um breytt heimilisfang á árinu 2008. Þá fluttist Miðbæjarveldið úr miðbænum og í Árbæinn.

Miðbæjarveldið var stofnað árið 2007. Eigendur voru Ragnar Óskar Magnússon og Baldvin Samúelsson. Meðal veitingastaða sem þeir áttu voru Barinn á Laugavegi 22, Q-bar í Ingólfsstræti og í skamma stund Kaffi Ólíver á Laugaveginum.

Enginn staðanna er til í dag en aðrir barir eru reknir þar sem þeir voru áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.