Fasteignir í miðbæ Reykjavíkur (mældar í evrum) eru meðal þeirra ódýrustu í samanburði við aðrar borgir í Evrópu. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag.

Þar er bent á að með þeim afslætti sem hægt er að fá í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans færist Ísland enn neðar á listanum og mælist fasteignaverð í Reykjavík þá í fjórða neðsta sætinu í Evrópu. Með fjárfestingaleiðinn hefur fjárfestum staðið til boða að selja evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi.

Í þeim fjórum útboðum sem haldin hafa verið hafa fjárfestar komið inn í landið með 245,2 milljónir evra og hefur afsláttur fjárfesta verið um 20% af skráðu gengi. Um 10% fjárfestinga hefur verið í fasteignum sem jafngildir um fimm milljörðum króna.

Verðmiði fasteigna í Reykjavík er því ekki hár í alþjóðlegum samanburði og bendir greiningardeildin á að færa megi rok fyrir því að Reykjavík ætti að skora hærra. „Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé í hærri kantinum á okkar mælikvarða þá er 7-8% atvinnuleysi á mælikvarða annarra landa ekki talið hátt. Þá hafa skýr merki komið fram sem undirstrika að efnahagsbatinn sé hafinn, auk þess sem Ísland er í ríkari helmingi Evrópulanda samkvæmt mælingum frá Eurostat,“ segir í markaðspunktunum.

Í ljósi þessa telur greiningardeildin ekki ólíklegt að fjárfestar fari að horfa í auknum mæli til fasteigna í komandi útboðum Seðlabankans, „hvort sem um er að ræða Íslendinga eða aðra Íslandsvini!,“ segir í markaðspunktunum.

Meðalfermetraverð íbúðarhúsnæðis
Meðalfermetraverð íbúðarhúsnæðis

Mynd fengin úr markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.