Nokkur stjórnarfrumvörp munu enda í salttunnunni á yfirstandandi vorþingi og þá hefur verið skrifað upp á dánarvottorð fyrir eitt slíkt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlitsskjali um stöðu stjórnarmála í nefndum sem dreift var til þingflokka í vikunni.

Líkt og alkunna er þá er Alþingi sjaldan eins skilvirkt eins og síðustu daga fyrir þinglok. Mál sem áður voru brokkgeng í þingsal og nefndum fljúga skyndilega í gegn meðan önnur deyja drottni sínum. Vanalega hefjast síðan hrossakaup milli stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem báðar hliðar frá að koma nokkrum málum í gegn.

Sem stendur liggja tæplega fimmtíu stjórnarmál inni í fastanefndum þingsins og er unnið að afgreiðslu þeirra. Sum þeirra hafa hlotið talsvert mikla umfjöllun en önnur minni. Á fyrrnefndu yfirliti eru málin flokkuð eftir því hvar þau standa. Þar má til að mynda sjá að frumvarp forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum, þess efnis að þriðja aðila sé veittur aukin réttur, mun ekki hljóta afgreiðslu til frekari umræðu.

Alls hafa fjögur mál verið sett í salttunnuna. Þar má til að mynda nefna frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stofnun Þjóðarsjóðs. Er þetta annað árið í röð sem téð þingmál kemst ekki í gegnum nálarauga efnahags- og viðskiptanefndar. Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um styrki til fjölmiðla fær einnig sömu meðferð öðru sinni. Önnur frumvörp sem hafa verið sett í salt eru breytingar á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra aðila og frumvarp um breytingar á málefnum innflytjenda.

Veggjaldafrumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gæti einnig verið í óvissu en í athugasemdum á skjalinu er skráð „Miðfl m. dólg“. Samsvör Miðflokksmanna frá síðasta sumri, vegna þriðja orkupakkans, eru þingi og þjóð vafalaust í fersku minni og óvíst hvort stjórnin vilji bjóða upp í þann dans á ný. Frumvarp um breytingar á skipun sendiherra virðist síðan mæta neikvæðni í utanríkismálanefnd.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rætt er um áætlanir og fjármögnun Play við nýjan stjórnarformann félagsins.
  • Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, er í ítarlegu viðtali.
  • Ný umboðsstofa fyrir listamenn hefur hafið starfsemi.
  • Umfjöllun um stöðu Icelandair.
  • Farið er yfir fjárfestingastefnur lífeyrissjóðanna.
  • Deila um uppgjör sjálfskuldaábyrgðar Björgólfs Thors og Róberts Wessmann vegna lántöku hjá Glitni er á ný fyrir dómi.
  • Viðtal við Þór Sigfússon um viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveita.
  • Nýr forstöðumaður hjá SA segir frá náminu og greiningaráhuganum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar upphefðir að utan.
  • Óðinn skrifar um núllvexti, fasteignamarkaðinn og ærumálin.