Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur staðfest það að nýja stjórnmálaaflið sem að hann hefur stofnað beri nafnið Miðflokkurinn. Á Facebook síðu sinni skrifar formaðurinn; „Já, MIÐFLOKKURINN, var það.“ Flokkurinn kemur til með að bjóða fram undir listabókstafnum M.

Fyrir skömmu síðan voru niðurstöður nýrrar skoðunarkönnunnar MMR gerðar opinberar , en samkvæmt þeim nýtur flokkur Sigmundar Davíðs 7,4 prósent fylgi. Í kjölfarið setti formaður nýja flokksins inn stöðufærslu á Facebook að hann væri „nánast orðlaus“ yfir viðtökunum.

Sigmundur tilkynnti um seinustu helgi að hann væri hættur í Framsókn og tilkynnti um stofnun nýs flokks. Hann skrifaði langa stöðufærslu á bloggsíðu sinni þar sem að hann tók fram að ákveðinn hópur innan Framsóknarflokksins hefði viljað losna við sig og því hefði hann ekki haft annan kost en að stofna nýtt stjórnmálaafl. Í þeirri færslu sagði að nýja stjórnmálaaflið hygðist;

Bjóða upp á valkost sem svarar kalli tímans og bregst við upplausnarástandi stjórnmálanna með skynsemishyggju og réttlæti að leiðarljósi. Vinna með traustu og heiðarlegu fólki að því að mynda flokk sem hefur þolgæði og kraft til að standa vörð um það sem er sanngjarnt og rétt, líka þegar það er erfitt. Flokk sem getur veitt stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en er um leið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokk sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma.