Á bílasýningunni New York Motor Show sem fram fór dagana 18. til 20. mars sl. kynnti Guy Nigre hönnuður franska loftknúna bílsins MIDI það nýjasta sem er að gerast í þróun bílsins sem gengur eingöngu fyrir samanþjöppuðu lofti.

Þar var jafnframt til sýnis nýjasta útgáfa bílsins þar sem ökumaður situr í miðjunni með farþega sitt hvoru megin. Hefur bíllinn verið teiknaður í ýmsum útgáfum, m.a. sem leigubíll. Gert er ráð fyrir að bíll sem þessi kosti frá um 3.500 evrum.

Bæði bíllinn sjálfur og þá ekki síður vél hans er byltingakennd og afrakstur af 15 ára þróunarferli. Þar sem ekki er um að ræða heita sprengingu í vélinni er hægt að smíða hana úr léttmálmi eins og áli og aðeins þarf að skipta um smurolíu (sem er um 1 lítir af matarolíu) á um 50 þúsund kílómetra fresti.

Bíllinn kemst um 100 til 200 kílómetra í innanbæjarakstri á einni tankfyllingu af lofti á allt að 110 kílómetra hraða. Aðeins tekur um 2 til 3 mínútur að fylla á tankinn með þrýstilofti, en með því að stinga bílnum í samband við rafmagn og nota innbyggða loftþjöppu bílsins tekur fyllingin um 3-4 tíma.

Með því að bæta við bensínhitara í ökutækið sem hitar upp þjappaða loftið til að auka rúmtak þess, kemst bíllinn mun lengra. Þannig kemst hann um 800 kílómetra á aðeins 1,7 lítrum af bensíni á 110 kílómetra hraða. Vegna þessarar litlu eyðslu er hægðarleikur að útbúa bílinn með bensíntanki sem dugar til að aka honum allt að 4.500 kílómetra á einni loftfyllingu. Reyndar getur bíllinn notað hvaða fljótandi eldsneyti sem er. Reiknað er með að rekstarkostnaður svona bíls verði 80% minni en á hefðbundnum bensínknúnum bíl.

Hönnuðurinn Guy Nigre er flugvélaverkfræðingur og enginn nýgræðingur á þessu sviði. Áður en hann stofnaði fyrirtækið sitt MDI-Energy starfaði hann við hönnun formúli 1 kappakstursbíla. Fyrirtækið er staðsett í Nice í Suður-Frakklandi. Þegar er búið að gera samning við indverska bílaframleiðandann Tata um framleiðslu á bílnum sem hefst í ágúst á þessu ári. Ráðgert er að sala á bílnum hefjist í Frakklandi undir lok þessa árs eða í byrjun árs 2009.

Þá kynntu forsvarsmenn MDI-Energy hugmyndina fyrir yfirvöldum og fjárfestum í Melborn í Ástralíu fyrr á þessu ári. Þar er hugmyndin að fjárfesta í verksmiðju fyrir um 1,5 milljarða dollara á næstu fimm árum. Er þeirri verksmiðju ætlaða að framleiða fyrir Ástralíumarkað. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan í Ástralíu skapi um 7.000 ný störf.