Miði.is tapaði 7,8 milljónum króna árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins, sem er í fullri eigu 365 miðla.

Rekstrarreikningur fyrirtækisins sýnir að sala ársins 2015 hafi numið rúmum 65 milljónum króna. Þetta er lakari sala en árið 2014, en þá seldi fyrirtækið fyrir rétt rúmar 88 milljónir.

Fyrirtækið tapaði 7,8 milljónum króna, en hagnaðist um tæpar 6,6 milljónir árið 2014. EBITDA félagsins var neikvæð um 787.780 krónur.

Á efnahagsreikningi fyrirtækisins, kemur fram að fastafjármunir ársins hafi samtals numið 77 milljónum og veltufjármunir samtals um 45 milljónir. Eignir samtals voru skráðar á rétt rúmar 122 milljónir sem er umtalsvert lægra en árið áður. Þá námu heildar eignir fyrirtækisins 233 milljónir.

Eigið fé ársins 2015 var nam samtals 79,8 milljónum króna. Skuldir félagsins voru samtals 42,5 milljónir.

Stjórn félagsins skipa þau Hilmar Gunnarsson, Sigrún Lína Sigurjónsdóttir og Ágúst Héðinsson. Framkvæmdastjóri er Ragnar Árnason og endurskoðandi fyrirtækisins er PWC ehf. á Íslandi.