*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 27. nóvember 2011 08:25

Miðlanir vissu af sölunni á bréfum Icelandair Group

Framtakssjóðurinn leitaði tilboða frá markaðsaðilum. Mikil velta daginn fyrir söluna vekur athygli.

Hallgrímur Oddsson
Hlutabréfaverð í Icelandair Group hefur flogið nokkuð hátt eftir hlutafjáraukningu. Bréfin hafa þó lækkað nokkuð á undanförnum vikum, m.a. föstudaginn fyrir sölu FSÍ á 10% hlut.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Föstudaginn 4. nóvember höfðu aðilar á markaði vitneskju um fyrirætlanir Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) um að selja 10% hlut í Icelandair Group á mánudeginum eftir helgina.

Framtakssjóðurinn leitaði til nokkurra markaðsaðila á föstudeginum til að fá tilboð um sölu á 10% hlut í Icelandair Group. Meðal markaðsaðila sem leitað var til voru miðlanir bankanna.

Þetta staðfestir Pétur Þ. Óskarsson, talsmaður Framtakssjóðs Íslands. Hann segir sjóðinn hafa farið eftir settum reglum í einu og öllu og að sjálfsögðu treyst því að farið yrði með upplýsingarnar sem trúnaðarmál.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að velta með bréf í Icelandair Group tífaldaðist í Kauphöll Íslands föstudaginn 4. nóvember. Á mánudag, næsta viðskiptadag, tilkynnti FSÍ um sölu á 10% hlut í félaginu. Mikil velta getur gefið til kynna að einhverjir á markaði hafi stundað viðskipti á þeim upplýsingum sem þeir höfðu um væntanlega sölu á 10% hlutnum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vöktu mikil viðskipti nokkra furðu á markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu blaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.