Hefðbundnir fjölmiðlar reyna að fóta sig í nýrri veröld félagsmiðla með misgóðum árangri. Fæstir telja sig hafa farið vel út úr viðskiptum við Facebook; þeir leggi til eftirsóknarvert efni, en séu rukkaðir stíft fyrir þau forréttindi. Upp á síðkastið hafa fjölmiðlar vestanhafs lagt gríðarlega áherslu á að geta nýtt sér Snapchat til auglýsinga og útbreiðslu.

Ástæðan er einföld, það er þar sem unga fólkið er. Eða að minnsta kosti fjarska lítið af gamlingjum. Nú er ungt fólk vissulega eftirsóknarverður neysluhópur, hvatvís og verslar iðulega á annarra kostnað, en sennilegast ríður annað baggamuninn: Fyrir hefðbundna fjölmiðla er þetta týnda kynslóð­in, sú fyrsta sem ekki skilaði sér sem lesendur, áskrifendur eða auglýsendur. Mun hún skila sér um Snapchat?