Furðu vakti þegar olíuverð hækkað yfir nótt um 1,5 dali á fatið á einni nóttu í júnílok 2009. Hafði heimsmarkaðsverðið ekki verið hærra í átta mánuði og engar stórfréttir gátu útskýrt hækkunina. Bresk eftirlitsyfirvöld hafa nú rannsakað málið og skýringin er grátbrosleg.

Olíumiðlarinn Steve Perkins, sem vann fyrir fyrirtækið PVM Oil Futures, hafði farið á fyllirí þá um nóttina og á rúmlega tveimur klukkutímum hafði hann varið 520 milljónum dala, andvirði um 64 milljarða króna, í olíukaup og náði hann að kaupa um 69% af markaðnum. Hækkaði hann í sífellu tilboð sín og fór verðið á fatinu úr 71,4 dölum í 73,05 dali á þessum tveimur tímum.

Um hálfsjö virðist Perkins hafa rankað við sér og hringdi hann í yfirmanninn og sagðist ekki geta mætt í vinnuna vegna veikinda í fjölskyldunni. Mundi hann ekkert eftir því að hafa verið jafn virkur á markaðnum og raunin var. Viðskiptin kostuðu PVM um 9,8 milljónir dala og missti Perkins miðlunarréttindi sín í fimm ár. Þá þurfti hann að greiða 72.000 pund í sekt. Breska fjármálaeftirlitið hefur sagt að hann geti fengið réttindin að nýju að fimm árum liðnum, að því gefnu að hann taki á drykkjuvandanum. Í skýrslunni segir að „markaðnum stafar mikil hætta af Perkins þegar hann er drukkinn.“