Fyrrverandi starfsmaður og miðlari hjá svissneska bankanum UBS hefur verið dæmdur fyrir fjársvik. Kweku Adoboli starfaði fyrir bankann í London og er sagður hafa tapað 1,4 milljörðum punda, sem samsvarar rúmlega 280 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Fyrir dómi hélt saksóknari því fram að Adoboli hefði verið einu veðmáli eða tveimur frá því að eyðileggja stærsta banka Sviss. Adoboli hélt því aftur á móti fram sjálfur að hann hefði verið hvattur áfram til að taka áhættu og að yfirmenn hans hafi haft vitneskju um ákvarðanir hans.