Það er verulegur munur á því hvaða gerð fréttamiðla er vinsælust, samkvæmt árlegri könnun Reuters-stofnunarinnar. Sjá má talsverðan mun eftir löndum, tekjum, menntunarstigi og svo framvegis, en sennilegast er munurinn eftir aldurshópum einna mest afgerandi.

Unga kynslóðin leitar helst frétta á netinu, þó vissulega horfi hún líka á sjónvarp. Í þessum tveim gerðum miðla er áhugi aldurshópanna hins vegar í þveröfugu hlutfalli, sem gefur mjög eindregnar vísbendingar um þróunina og rímar vel við aðrar ábendingar um að ungt fólk sé lítið gefið fyrir línulega dagskrá.

Þessi aldursmunur er ekki jafnákveðinn hvað útvarp og prentmiðla áhrærir, en þar koma ýmsir aðrir þættir til, svo sem menntun, tekjur og bílaeign.