Hálslón hefur hækkað um rúmlega 3 metra síðastliðna viku og vantar nú aðeins 80 cm á að það fyllist. Áætlað er að Hálslón fari á yfirfall á föstudagskvöld en þá nær yfirborð lónsins 625 metrum yfir sjávarmáli. Þegar vatn rennur á yfirfalli myndast fossinn Hverfandi við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist vatnið 90-100 metra niður í Hafrahvammagljúfur.

Hágöngulón fylltist 23. júlí og aðeins vantar 30 cm á að Þórisvatn fyllist. Blöndulón hefur einnig hækkað hratt og nú vantar aðeins 10 cm á að vatn renni þar á yfirfalli.

Vatni hefur verið hleypt um yfirfall Ufsarlóns í farveg Jökulsár í Fljótsdal frá því í lok júní, en eitt af skilyrðum umhverfisráðherra fyrir virkjunarleyfi við Kárahnjúka var að yfirfallsvatn væri nýtt á skipulegan hátt á ferðamannatíma og að leitast yrði við að ná meðalrennsli í farvegi Jökulsár í Fljótsdal í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Með því að hleypa vatni á farveginn er Landsvirkjun að vinna samkvæmt því skilyrði.