Kauphöll um málmviðskipti ýmis konar í sveitarfélaginu City of London, viðskiptahverfi samnefndrar borgar, er nýjasta fyrirtækið í borginni sem hefur bannað starfsmönnum að stunda viðskipti eftir að hafa fengið sér áfengi.

Nær bannið til 120 starfsmanna þeirra níu fyrirtækja sem starfa innan kauphallarinnar London Metal Exchange, frá miðlurum til skrifstofufólks, en það kemur í kjölfar svipaðra reglna sem Lloyd´s setti fyrr á árinu.

Samkvæmt frétt BBC er ákvörðunin ekki sögð vera svar við einhverju ákveðnu atviki, en töluverð gagnrýni var á kokteilboð í Playboy klúbbi undir merkjum kauphallarinnar. Í maímánuði var fyrsti kvenkyns stjórnarformaður kauphallarinnar kjörinn, Gay Huey. Eru reglurnar ekki einskorðaðar við hefðbundinn vinnudag frá 9 að morgni til 5 síðdegis.