Þorsteinn segir að miðstýrt kjarasamningalíkan sé ekki eini valkosturinn þegar kemur að því að semja um kaup og kjör á vinnumarkaði. Til séu dreifstýrðir samningar. „Þar sem hver einstaklingur semur fyrir sig. Ég myndi segja að það væri heppilegt að mjög mörgu leyti. Það hámarkar sveigjanleika vinnumarkaðar. Þar eru launamenn launaðir að fullu á eigin verðleikum, samkeppnishæfni, menntun, reynslu og svo framvegis,“ segir Þorsteinn.

„Í fullkomlega dreifstýrðu kerfi er samningsstaða fyrirtækjanna að mörgu leyti sterkari og helgast þá fyrst og fremst af því hvernig samkeppni um starfsfólk er hverju sinni. Þannig að það eru minni líkur á að fyrirtækin fari fram úr sér, þar eru launahækkanir í samræmi við samningsstöðu og burði fyrirtækjanna til launahækkana,“ bætir Þorsteinn við. Á Íslandi eru hins vegar níu af hverjum tíu starfsmanna fyrirtækja í verkalýðsfélögum sem er mjög hátt hlutfall. Fyrir vikið eru kjarasamningar hér mjög miðstýrðir en það kallar aftur á að forystumenn verkalýðsfélaga axli þá efnahagslegu ábyrgð sem því fylgi. Með samtakamættinum megi knýja í gegn of háar launahækkanir sem á endanum grafi undan lífsgæðum okkar líkt og dæmin sýni.