Miðengi ehf., eignarhaldsfélag Íslandsbanka, hefur lokið sölu á tveimur eignahlutum í fyrirtækjum úr eignasafni sínu. Eignarhlutur Miðengis í Hafnarslóð ehf. var auglýstur til sölu þann 19. mars sl.

Í fréttatilkynningu frá Miðengi ehf. kemur fram að söluferlið var opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylltu skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, auk þess sem skilyrði var sett um verulegan fjárhagslegan styrk og viðeigandi þekkingu. Hafnarslóð ehf. á lóð og fasteign við Vesturbrú 7 í Garðabæ, þar sem leikskólinn Sjáland er rekinn.  Samtals skiluðu sex aðilar inn trúnaðaryfirlýsingum og fengu afhent kynningargögn um félagið.

Tvö skuldbindandi tilboð bárust í félagið með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Tilboð voru opnuð þann 4. maí í viðurvist óháðs eftirlitsaðila. Gengið var til samninga við FM-hús ehf. á grundvelli tilboðs þeirra.

Þá hefur Miðengi selt 0,01% hlut sinn í Fiskmarkaði Íslands ehf. að nafnverði kr. 7.791. Kaupandi er Fiskmarkaður Íslands ehf. Salan fór fram í maí 2010 í lokuðu söluferli þar sem um óverulega fjárhagshagsmuni var að ræða.

Í fréttatilkynningu frá Miðengi ehf. segir að söluverð í framangreindum viðskiptum eru trúnaðarmál.