Í tengslum við þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi 365 miðla hefur verið ákveðið að fella allan sjónvarpsrekstur annan en þjónustu fréttastofu undir eina stjórn, bæði dagskrársetningu og eigin framleiðslu fyrir opna og lokaða dagskrá Stöðvar 2 og sportstöðva og fylgistöðva Stöðvar 2, sem eru Krakkar, Gull, Bíórásin og PoppTV. Kemur þetta fram í frétt Vísis .

Freyr Einarsson, sem verið hefur yfirmaður fréttastöðvar Stöðvar 2 og Vísis, mun stýra sjónvarpsrekstri fyrirtækisins.

Vb.is greindi frá því fyrr í dag að til stæði að sameina fréttastofur Vísis, Stöðvar 2 og Fréttablaðsins undir stjórn Mikaels Torfasonar.

Sameinaðri ritstjórn stýra núverandi ritstjórar Fréttablaðsins. Mikael Torfason verður aðalritstjóri og leiðir sameiningarferlið og Ólafur Þ. Stephensen verður ritstjóri. Áfram verða svo starfandi frétta- og vaktstjórar einstakra miðla.

Breytingin mun hafa í för með sér að talsverður hópur fréttamanna vinnur fréttir fyrir alla miðla fyrirtækisins jöfnum höndum. Sameiningunni verður hrint í framkvæmd í áföngum á næstu vikum og mánuðum.