Mikael Torfason hefur í gegnum félag sitt, TERM ehf., stofnað framleiðslufyrirtækið Thule Camp Studios.

Samkvæmt Lögbirtingablaðinu er tilgangur félagsins framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni. Hann er stjórnarmaður félagsins, í framkvæmdastjórn félagsins situr Elín Guðrún Ragnarsdóttir. Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Mikael ekki tjá sig meira um málið.

Mikael Torfason hefur lengi fengist við ritstörf og samið fjölmargar skáldsögur, en hann lét af störfum sem aðalritstjóri á fréttastofu 365 síðasta ágúst.

Í viðtali við Stundina í apríl sagðist hann hafa verið að takast á við fortíð sína undanfarna mánuði með skrifum á sjálfsævisögulegri bók. Hann hefur einnig fengist við kvikmyndagerð en hann skrifaði handritið og leikstýrði myndinni Gemsar árið 2002.