Enski milljarðamæringurinn, Mike Ashley, eigandi íþróttavörukeðjunnar Sports Direct og knattspyrnuliðsins Newcastle United hefur verið sýknaður af 15 milljón punda kröfu fyrrum samstarfsmanns síns. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg

Málavextir voru þeir að árið 2013 hafði Mike Ashley lofað fyrrum bankamanninum Jeffery Blue, 15 milljón punda kaupaukagreiðslu ef honum tækist að tvöfalda hlutabréfaverð Sports Direct. Það gerðist svo en vandamálið var að Ashley hafði lofað Blue greiðslunni meðan að þeir sátu að drykkju á Horse & Groom barnum í London. Blue fékk einungis greiðslu upp á eina milljón punda.

Málaferlin hafa verið vægast sagt skrautleg. Í vitnisburði sínum sagði Ashley að hann muni ekki eftir því hvað hafi nákvæmlega farið þeirra á milli og að hann hafi fengið sér fjóra til fimm drykki á fyrsta klukkutímanum. Sagði hann að allt sem hann hafi sagt hafi verið grín á milli vina á drykkjukvöldi. „Þetta var skemmtilegt og kvöld og það var drukkið hratt. Mér finnst gaman að verða fullur. Ég er ofur-drykkjumaður. Ég drekk ekki reglulega, en þegar ég drekk þá drekk ég mig fullan," sagði Ashley við réttarhöldin. Bætti hann því við að eina ástæðan fyrir því að hlutabréfaverðið hafi hækkað væri vegna dugnaðar starfsfólks Sports Direct.

Við dómsuppkvaðninguna sagði George Leggatt dómarinn í málinu ða enginn venjulegur maður hefði haldið að Ashley væri alvara með tilboði sínu. „Málið sýnir að óskhyggja mannsins virðist ekki eiga sér nein takmörk."