Mark Flanaga, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sagðist aðspurður á blaðamannafundi í morgun, að hugsanlega hefði verið óþarft að halda þeim tillögum sem AGS  skilaði til ríkisstjórnarinnar í febrúar leyndum.

Sem kunnugt er lagði ríkisstjórnin fram frumvarp til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands. Þá leitaði ríkisstjórnin meðal annars álits AGS á frumvarpinu en tillögur AGS voru aldrei gerðar opinberar.

Frumvarpið, sem að lokum var samþykkt, hlaut mikla umræði á Alþingi. Meðal annars var tekist á um það hvort aflétt skyldi trúnaði um þær tillögur sem AGS veitti ríkisstjórninni.

Flanagan sagði í morgun að tillögur AGS hefðu eingöngu verið tæknilegs eðlis og byggðar á reynslu sjóðsins af samskiptum við um 180 seðlabanka víðs vegar um heiminn. Aðspurður um leynd tillagnanna sagði Flanagan að hugsanlega hefði verið óþarft að halda þeim leyndum. Hins vegar væri málið pólitískt eðlis og AGS hefði ekki viljað flækjast inn í pólitíska baráttu hér á landi, sem þó  hefði orðið raunin.