Mark Flanagan, fráfarandi yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hann telji margt hafi áunnist í baráttunni við að taka á ytra ójafnvægi íslenska hagkerfisins.

„Áætlun stjórnvalda hafði það meðal annars sem markmið að endurvekja sjálfbærni ríkisfjármála og að endurvekja fjármálakerfið. Í báðum tilvikum hefur þeim markmiðum verið náð. Með fjárlögum næsta árs er takmarkið að minnka fjárlagahallann verulega. Takist það verður um mikið afrek að ræða, sérstaklega þegar horft er til þess gríðarlega halla sem varð til þegar kreppan skall á.“

Náðu að viðhalda meginundirstöðum velferðarkerfisins

„Það hefur því mjög margt náðst fram hvað varðar aðlögun íslenska efnahagslífsins að nýjum veruleika. Ísland er að mörgu leyti langt á undan öðrum löndum sem hafa lent í svona vandræðum í sínum bata. Sú staða endurspeglast í okkar spá, sem sett er fram í skýrslunni um þriðju endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Það er líka mikið afrek að íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að fara í gegnum þessa aðlögun á sama tíma og þeim hefur tekist að viðhalda meginundirstöðum norræns velferðarkerfis og án þess að gera eðlisbreytingu á því sem við hjá AGS teljum vera mjög einfalt og afkastamikið skattkerfi.“

_____________________________

Í Viðskiptablaðinu í dag er ítarlegt viðtal við Flanagan. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .