Óvenju margar atvinnuauglýsingar, þar sem óskað er eftir Íslendingum til starfa erlendis, eru í atvinnukálfum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um helgina.

Þar eru auglýstar stöður víða um heim, aðallega þó á hinum Norðurlöndunum og einna helst í Noregi.

Til dæmis er óskað eftir verkfræðingum, rafvirkjum, vélvirkjum, vélstjórum, hjúkrunarfræðingum og matreiðslumönnum svo dæmi séu nefnd.

Auglýst eftir matreiðslumanni

Af 29 auglýsingum í atvinnukálfi Morgunblaðsins eru í sjö þeirra óskað eftir Íslendingum til starfa erlendis. Í flestum auglýsingunum eru fjölmörg störf í boði.

Í einni auglýsingunni óskar til dæmis starfsmannamiðlun eftir því að fá Íslendinga á skrá hjá sér vegna fjölbreyttra starfa í Noregi og í annarri auglýsingunni óskar fimm stjörnu veitingastaður í Ósló eftir matreiðslumanni.