Óhætt er að segja að framkvæmdir sumarsins hafi gengið vel á Seltjarnarnesi enda hefur veðurfar sjaldan verið jafn hagstætt fyrir hin fjölmörgu viðhaldsstörf er unnin eru á hverju sumri á Seltjarnarnesi. Vel miðar fegrun opinna svæði innan bæjarmarkanna og verður áfram haldið á sömu braut.

Í sumar var t.d. lokið við frágang á Snoppu með miklum sóma og m.a. malbikaður lokakaflinn frá Norðurströnd að bílastæðinu þar. Aðstaðan þar er nú orðin til fyrirmyndar og hefur umferð um svæðið vaxið til muna í kjölfarið. Suðurströnd var einnig kantlögð í sumar auk þess sem unnið var að viðgerðum á gangstéttum, útivistarsvæðum og götum víða um bæinn.

Í sumar reis einnig bæjarhlið við Nesveg og má því segja að aðkoman að bænum sé vörðuð bæði að sunnan megin og norðan. Mannvirkið við Nesveg er af nokkru öðru tagi en bæjarhliðið við Norðurströnd enda þrengra um það. Hliðið við Nesveg skapar skemmtilega aðkomu að bænum og er til mikillar prýði.