Línurnar eru farnar að skýrast í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Prófkjör verða haldin í New Hampshire í dag og niðurstöður þeirra munu ráða miklu um gang mála.

Í dag verða haldin í New Hampshire ríki prófkjör demókrata og repúblikana fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Reynslan hefur sýnt að fyrstu prófkjör og forvöl í aðdraganda forsetakosninganna geta skipt sköpum fyrir brautargengi frambjóðenda. Óvæntir sigrar geta skapað stemningu í kringum einstaka framboð sem svo nýtist þegar gengið er til kosninga í hinum stærri ríkjum í febrúar.

Niðurstaða kosninganna í New Hampshire mun skera úr um hvort slík stemning hafi myndast í kringum framboð Barack Obama sem vann sigur í forvali demókrata í Iowa í síðustu viku. Jafnframt munu kosningarnar skera úr um hverjar horfurnar eru fyrir framboð manna á borð við repúblikanana John McCain og Mitt Romney.

Sigurvegarar í forvali demókrata og repúblikana í Iowa í síðustu viku voru þeir Barack Obama og Mike Huckabee. Ef marka má skoðanakannanir mun Obama sigra í prófkjörinu í dag og styrkja þar með stöðu sína verulega gagnvart Hillary Clinton.

Á miðopnu Viðskiptablaðsins í dag er nánari úttekt á prófkjörum flokkanna í Bandaríkjunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf skjali hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta látið opna fyrir hann með því að senda tölvupóst á [email protected] .