Án alls vafa hefði Landsbanki Íslands, sem er viðskiptabanki Eimskipafélagsins, komist í heldur óþægilega stöðu, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, ef um 26 milljarða ábyrgð Eimskipafélagsins vegna XL Leisure Group hefði fallið á félagið og Eimskipafélagið þá hugsanlega komist í þrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú hafa fjárfestar, undir forystu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, að vísu lýst því yfir að þeir taki kröfuna yfir og að hún muni víkja fyrir kröfum annarra lánardrottna á hendur Eimskip.

Ekki liggur fyrir hvenær eða hvernig Björgólfsfeðgar og meðfjárfestar þeirra munu greiða kröfuna en þeir gáfu út að þeir myndu fresta gjalddaga hennar. Þótt þeir Björgólfsfeðgar hafi lengi vel verið taldar standa sterkt fjárhagslega fer auðvitað ekki hjá því að menn velti því fyrir sér, ekki síst á tímum þegar hvorki láns- né lausafé liggur beinlínis á lausu, hversu miklu fé þeir feðgar ráða í raun yfir til þess að koma til aðstoðar Eimskipafélaginu eða öðrum félögum á þeirra vegum. Vart þarf að taka fram að um það liggja vitaskuld engar upplýsingar á lausu.

En hvernig svo sem því víkur við, breytir það ekki því að í málum Eimskipafélagsins var og er geysimikið í húfi, ekki bara fyrir Eimskipafélagið og eigendur þess, heldur einnig fyrir Landsbanka Íslands þar sem Björgólfsfeðgar eru einnig aðaleigendur, svo og fyrir Straum- Burðarás, þar sem Björgólfur Thor er aðaleigandi, en í miklum mun minna mæli. Sjálfur hefur Straumur-Burðarás gefið upp að áhætta hans vegna XL Leisure hafi numið 45 milljónum evra, eða um 5,8 milljörðum króna, sem táknar þá að áhætta Landsbankans var miklu meiri, eða um 21 milljarður króna.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .