Í viðræðum forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar við forseta Mexíkó Felipe Calderón á fyrsta degi opinberrar heimsóknar forseta Íslands kom fram ríkur áhugi á að hrinda í framkvæmd fjölmörgum samvinnuverkefnum milli landanna.Þar bar hæst virkjun jarðhita og annarra hreinna orkugjafa en Mexíkó hefur fjölþætta möguleika til að nýta sér reynslu Íslendinga á því sviði, nýjungar á sviði sjávarútvegs og fiskiðnaðar en þörf er á endur¬skipulagningu þeirrar atvinnugreinar í landinu, rannsóknir og samstarf háskóla og ýmis verkefni á sviði menningar, uppeldis og heilbrigðismála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaskrifstofu.

Fjölmörg fyrirtæki með í sendinefnd

Fulltrúar íslenskra fyrirtækja og háskóla sem skipa viðskiptasendinefnd sem fylgir forseta Íslands í heimsókninni hafa átt viðræður við samstarfsaðila í Mexíkó og tekið þátt í sérstökum fundum um samvinnu landanna. Meðal fyrirtækja og stofnana í viðskiptasendinefndinni eru Landsbankinn, Glitnir, Geysir Green Energy, Háskólinn í Reykjavík, RES orkuskóli, Marel og Latibær.

Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin Hólshyrna og Korni sem starfað hafa í Mexíkó undirrituðu á fyrsta degi heimsóknarinnar víðtæka samstarfssamninga við stjórnvöld í mexíkóskum sjávarútvegi, og Latibær mun á öðrum degi heimsóknarinnar kynna samninga við Wal-Mart í Mexíkó.

Mexíkó styður framoð Íslands til Öryggisráðs S.Þ.

Forseti Mexíkó lýsti yfir eindregnum stuðningi við framboð Íslands til Öryggisráðsins og tilkynnti að Mexíkó vænti mikil af samstarfi við Ísland í ráðinu. Þá þáði hann með þökkum boð um að heimsækja Ísland til að styrkja enn frekar þau samstarfsverkefni sem hér væru á dagskrá.

Opinber heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Mexíkó hófst í gærmorgun, þriðjudaginn 11. mars, þegar forseti lagði blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða um frelsishetjur Mexíkó. Forseti Mexíkó Felipe Caldrón Hinojosa og eiginkona hans Margarita Zavala tóku á móti íslensku forsetahjónunum í bústað forseta Mexíkó, Los Pinos.

Eftir opinbera móttökuathöfn fóru fram viðræður forseta landanna með þátttöku Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og Patriciu Espinosa Cantellano utanríkisráðherra Mexíkó. Í kjölfarið fylgdi fundur forsetanna með sendinefndum.

Undirrituðu samninga um tvísköttun

Menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir undirritaði fyrir Íslands hönd þrjá samninga milli Mexíkó og Íslands, samning um tvísköttun, samning um samvinnu í orkumálum og samning um vegabréfsáritanir. Að loknum undirskriftunum ávörpuðu forsetar landanna blaðamannafund og gerði forseti Mexíkó þar ítarlega grein fyrir þeim árangri sem viðræðurnar hefðu skilað.

Síðdegis bauð sendiherra Íslands í Mexíkó, Albert Jónsson, Íslendingum búsettum í Mexíkó til móttöku. Um kvöldið flutti forseti fyrirlestur í boði Alþjóðamálaráðs Mexíkó og fjallaði hann um loftslagsbreytingar og orkumál, einkum reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita og gildi hennar í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum. Núverandi og fyrrverandi umhverfisráð¬herrar Mexíkó tóku þátt í pallborðsumræðum að erindinu loknu.

Í dag 12. mars hefst dagskrá heimsóknarinnar með hringborðs-umræðum um endurnýjanlega orku og mun Georgina Kessel orkumálaráðherra Mexíkó taka þátt í þeim ásamt fulltrúum íslenskra orkuskóla, orkufyrirtækja og fjármálastofnana.