Mikið skrið er á íslenska hagkerfinu um þessar mundir og jókst landsframleiðslan um 4,9% milli fyrsta ársfjórðungs á þessu ári frá sama tímabili í fyrra. Hagvöxturinn einkenndist af mikilli aukningu einkaneyslu og fjárfestingar. Einkaneyslan, sem hafði aukist um og yfir 6% á öllum fjórðungum ársins 2003, óx enn meira á 1. fjórðungi eða um 8% frá sama fjórðungi fyrra árs. Sem fyrr má rekja meginhluta þessa vaxtar til kaupa á innfluttri neysluvöru og til útgjalda erlendis.

Í frétt frá Hagstofunni kemur fram að fjárfesting er talin hafa vaxið um 17% á fyrsta fjórðungi en þá var hún fremur lítil miðað við það sem síðar varð á árinu. Fyrstu vísbendingar um þróun samneyslunnar á árinu 2004 benda til hægari vaxtar en verið hefur. Nú er talið að samneyslan hafi vaxið um 1,9% á fyrsta fjórðungi samanborið við um og yfir 3% á fyrri hluta liðins árs.

Mikill vöxtur einkaneyslu og fjárfestingar leiddi til 8,6% aukningar þjóðarútgjalda en þau eru samtala neyslu og fjárfestingar. Mikill vöxtur innflutnings, 14,2%, og hægur vöxtur útflutnings, 4,3%, leiddi til minni hagvaxtar eða 4,9%.