Tap stærstu tryggingafélaganna hérlendis á frjálsum ökutækjatryggingum nam hundruðum milljóna á liðnu ári, sem þó er betri niðurstaða en árið á undan. Félögin hafa hækkað iðgjöld og sum íhuga þau að láta eigendur dýrra bíla greiða hærri iðgjöld en þau hafa gert.

Tap fjögurra stærstu tryggingafélaganna vegna frjálsrar ökutækjatryggingar var samtals um 660-670 milljónir króna á liðnu ári. Tapið á þessum tryggingaflokki er þó talsvert minna en árið 2006, en þá nam tap allra tryggingafélaganna á frjálsum ökutækjatryggingum 720 milljónum króna. Skýrist betri afkoma einkum af hækkunum á iðgjöldum á liðnu ári. Frjálsar ökutækjatryggingar eru oftast nefndar kaskó-tryggingar en undir þennan flokk falla sum félögin einnig rúðutryggingar. VÍS er með mestu markaðshlutdeildina hérlendis, þá Sjóvá, TM og loks Vörður.

Nánari umfjöllun um ökutækjatryggingar er að finna í Viðskiptablaðinu í dag.  Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .