Hagnaður af rekstri Tæknivals á fyrstu sex mánuðum ársins nam 692 milljónum króna en söluhagnaður félagsins á tímabilinu var 1.049 milljónir króna. Tap af rekstri félagsins er rúmar 200 milljónir króna samanborið við 175 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra.

Almar Örn Hilmarsson, forstjóri félagsins segist vera sáttur við uppgjörið miðað við þær kostnaðarsömu breytingar sem félagið gekk í gegnum á tímabilinu. "Mikill einskiptiskostnaður féll til á tímabilinu sem ekki var sérgreindur í uppgjörina en nú er hann að mestu leyti kominn fram, segir hann," í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Hann segir þann rekstur sem eftir sé í Tæknivali vera þann rekstur sem hafi verið hvað erfiðastur áður en hann sé nú að komast á rétt ról.

Heildareignir félagsins nema 611 milljónum króna og má því búast við að félagið þoli ekki mikinn taprekstur á komandi misserum. Eigið fé félagsins er 85 milljónir króna. Almar Örn segir eiginfjárstöðu félagsins ekki vera slæma vegna þess að engin viðskiptavild væri skráð í bókum félagsins. Ef viðskiptavild væri skráð hækkaði eigið fé um upphæð viðskiptavildarinnar.