Afkoma General Motors og Ford, tveggja stærstu bílafyrirtækja í Bandaríkjunum, var mun verri en búist hafði verið við á þriðja ársfjórðungi.

Tap General Motors nam 4,2 milljörðum Bandaríkjadala á meðan tap Ford nam rétt tæplega 3 milljörðum dala.

Bæði félög hyggjast ráðast í aðhaldsaðgerðir til að lækka rekstrarkostnað, einkum launakostnað.

Bílaiðnaðurinn í Bandaríkjunum hefur kallað eftir hjálp stjórnvalda til að lifa af, en þegar hefur bandaríska ríkið tryggt bransanum 50 milljarða dala af ódýru lánsfé.

Eftirspurn eftir bílum hefur hrunið út um allan heim, þar sem neytendur halda að sér höndum vegna óvissu um efnahagsástandið og lánsfjárkreppan kemur niður á bílalánum.

Gengi bréfa Ford hefur fallið um 71% það sem af er þessu ári og gengi bréfa General Motors um 83%.

Reuters greindi frá.