Tap bandaríska fjárfestingalánasjóðsins Fannie Mae á 2. ársfjórðungi nam 2,3 milljörðum dala (tæplega 191 milljarður íslenskra króna) en á sama tímabili í fyrra skilaði sjóðurinn tæplega 2 milljarða dala hagnaði.

Undirmálslánakrísan vestan hafs hefur farið illa með Fannie Mae, en afkoma sjóðsins á 2. fjórðungi er mun verri en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.

Fyrr í vikunni tilkynnti Freddie Mac, systurfélag Fannie Mae, um 821 milljóna dala tap. Það var einnig mun meira tap en greiningaraðilar höfðu spáð.

Líkt og Freddie Mac hefur Fannie Mae tilkynnt fyrirætlanir um að skerða arðgreiðslur til hluthafa.