Lífeyrissjóðirnir hafa mikla möguleika að stórauka fjárfestingar í innlendum hlutabréfum, að sögn Sigþórs Jónssonar, forstöðumanns hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni.

Í dag er hlutfall lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum að jafnaði 2-3% af heildareignum þeirra en fór upp í 20% þegar best lét árið 2007.

"Við gerum ráð fyrir því að hlutfall innlendra hlutabréfa lífeyrissjóða a.m.k. tvöfaldist á næstu fimm árum og verði komið upp í 5-10%. Þetta þýðir 50-100 milljarða aukningu  í eignasöfnum lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum á næstu árum," sagði Sigþór á fundi Kauphallarinnar á dögunum.

Stefnismenn spá því að markaðsvirði innlendra hlutabréfa verði komið upp í þriðjung af vergri landsframleiðslu á næstu fimm árum en er í dag 10-15%.