Sigurður Atli Jónsson var nýlega ráðinn í starf forstjóra MP banka í kjölfar yfirtöku bankans á Alfa verðbréfum, sem hann stofnaði og var í forsvari fyrir. Fyrir Sigurði Atla liggur nú að koma áherslum nýrra eigenda bankans í framkvæmd en eins og flestum er kunnugt var staða MP banka orðin allerfið þegar nýir eigendur tóku við honum.

Sigurður Atli segir að útlán bankans séu ekki nægilega mikil sem aftur felur í sér að reksturinn sé ekki sjálfbær. Hversu mikið þarf að auka útlán til þess að reksturinn verði sjálfbær? „Útlánasafnið þarf að vaxa og við erum með ákveðin plön þar sem ég get ekki greint frá en við þurfum að fylgja eftir. Það kom mér á óvart hversu mikið af spennandi verkefnum kemur inn á borð til okkar og mér finnst almennt að efnahagsbati sé á leiðinni. Fyrirtæki eru að setja sig í stellingar og þar sem við erum ekki mjög stór banki þurfa verkefnin ekki að vera mjög stór til þess að við vöxum mikið hlutfallslega. Ég held að við séum á byrjunarstigum í efnahagsbatanum og hagstærðir benda til þess. Smærri og meðalstór fyrirtæki eru að komast af stað í verkefni og þótt stærðirnar séu ekki mjög miklar hentar það banka eins og okkar mjög vel. Það er sennilega lengra í að stóru verkefnin komi inn enda er það oft háð pólitískum ákvörðunum og landslagi.

Ítarlegra viðtal við Sigurð Atla má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.