Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það óskiljanlega umræðu að fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fram fæli í sér niðurskurðarfjárlög. Vísar hann þar í umræðu úr ranni sumra stjórnmálaflokka í tengslum við tilraunir til stjórnarmyndunar.

„...þetta er[u] sennilega mesta útgjaldaaukningafrumvarp síðan kannski 2007, kannski næstmesta í sögunni,“ sagði Brynjar að því er mbl.is greinir frá.

„Ég held að vandamálið sem við glímum við núna sé að of mikið af útgjöldum er í fjárlagafrumvarpinu. Við erum að fara of bratt. Við ættum að hugsa núna hvort ástæða sé til að skera niður og beita aðhaldi og aga. Til lengri tíma litið kann það að vera betra fyrir þjóðina.“

Söguleg aukning í framlögum

Sagði hann að um væri að ræða sögulega aukningu í framlögum til velferðarmála, heilbrigðismála og almannatryggingamála, en engu að síður væri talað eins og eintómur niðurskuður hafi átt sér stað.

„Í hvaða veruleika erum við eiginlega komin? Mér er þetta algjörlega óskiljanlegt,“ segir Brynjar og vísar í fjáraukalög og viðbætur þar sem verið væri

„að stroka út skuldir flestra ef ekki allra stofnana, halann sem menn hafa dregið á eftir sér, það er gífurleg aukning.“