„Við gerum auðvitað þá kröfu til íslenskra fyrirtækja að þau fylgi íslenskum lögum og lögum í þeim löndum þar sem þau starfa. Hins vegar verð ég að segja að eins og þetta mál blasti við í gær fannst mér það minna óþægilega á gamaldags nýlenduherra sem eru að nýta sér veikleika í stjórnkerfi viðkomandi lands,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þar sem hún svaraði spurningum um Samherjamálið sem fjallað var um í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld.

„Ég var mjög slegin og mér var mjög brugðið við að horfa á þau gögn sem voru birt í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi. Það er alveg ljóst að ef þessir málavextir reynast réttir, eins og þeir voru birtir þarna, þá er þetta mál allt hið versta og til skammar fyrir Samherja og mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskt atvinnulíf,“ sagði Katrín.

Katrín sagði jafnframt að viðeigandi stofnanir þurfi að rannsaka ofan í kjölinn þær upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um málið. „Þetta mál þarf núna að rannsaka ofan í kjölinn. Það þarf að lyfta hverjum steini þar,“ sagði Katrín og bætti við að héraðssaksóknari hafi hafið rannsókn á málinu og Skattrannsóknarstjóri sé að fara yfir gögn sem embættinu hafi borist.