*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 13. mars 2015 07:55

Mikið álag á dómskerfinu

Tímabundin fjölgun dómara rennur út um áramótin, en mikið annríki er við dómstóla landsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Sumir dómarar eru betur settir en aðrir. Ég hef þó heyrt af því að sumir dómarar séu búnir að bóka aðalmeðferð langt fram á haustið,“ segir Ingimundur Einarsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, í samtali við Fréttablaðið, en þar er greint frá því löng bið sé eftir málsmeðferð í dómskerfinu.

Ingimundur segir að erfitt sé að meta hvort álagið hafi aukist undanfarin ár. Hann hafi þó veitt því athygli að það sé töluvert um mjög þung og umfangsmikil mál sem hafi verið að koma inn til dómstólanna og á þar sérstaklega við einkamálin, þótt sum sakamálin hafi einnig tekið sinn tíma.

Í ársbyrjun 2010 var héraðsdómurum fjölgað um fimm og fóru þar af þrír til Héraðsdóms Reykjavíkur. Þessi skipun er hins vegar tímabundin og rennur hún út um áramótin, sem þýðir að ef dómarar hætta verður ekki ráðið í stöður þeirra. „Ég get varla séð fyrir mér að unnt sé að fækka dómurum frá því sem er í dag, ég segi nú bara alveg eins og er,“ segir Ingimundur.