„Okkur finnst náttúrulega bara ömurlegt að það hafi ekki verið komið að borðinu og samið við okkur, en við stöndum þetta alveg. En auðvitað hefðum við ekki viljað að þetta væri svona langt. Það er alveg á hreinu,“ segir Katrín Sigurðardóttir, geislafræðingur í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Verkföll félagsmanna BHM standa enn yfir, og hafa gert frá 7. apríl síðastliðnum. Katrín segir að mikið álag sé á félagsmönnum BHM um þessar mundir. „En það er ofboðslegt álag á fólki. Það er bara þreytt og reynir að slaka á, ef það er smuga þess á milli," segir hún.

Óþægilegt að valda öðrum óþægindum

Þóra Jóhanna Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir, segir það óþægilega tilfinningu að vita til þess að óviðkomandi verði fyrir óþægindum vegna verkfalla.

Hún kveðst ekki hafa búist við því að verkfall myndi standa yfir jafn lengi og raun ber vitni. „Nei, við áttum von á miklu meiri viðbrögðum af hálfu ríkisins,“ Þóra.

Grjóthörð samstaða

Lífeindafræðingar innan BHM eru í verkfalli fyrir hádegi á virkum dögum. Edda Sóley Óskarsdóttir, lífeindafræðingur segir lífeindafræðinga vera orðna langþreytta á verkfallinu. „Það er ekkert sem við viljum frekar en að það sé gengið til samninga við okkur. En við munum ekkert gefast upp og það er engan bilbug á okkur, að finna, og verður ekki. Samstaðan er alveg grjóthörð, á öllum vinnustöðum stöndum við saman um þetta," segir Edda.