Vegna skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar unnu starfsmenn ríkisskattstjóra 8795 yfirvinnutíma á árunum 2014 og 2015, og unnu 19 starfsmenn í fullu starfi að málinu þegar mest var.

Alls komu 90 starfsmenn að málinu á einn eða annan hátt en lengst af voru þeir sem sáu um framkvæmdina 16 til 17, en 13 voru ráðnir tímabundið sérstaklega fyrir verkefnið. Bárust 69 þúsund umsóknir frá 105 þúsund einstaklingum um höfuðstólslækkun fasteignalána.

Meira álag en búist var við

Mikið álag var á embætti ríkisskattstjóra en á tímabilinu 18.maí 2014 til 2. febrúar 2015 bárust því 46 þúsund símtöl og 33 þúsund tölvupóstar. Jafnframt komu 870 þúsund heimsóknir á vefinn leidretting.is, meðal annars frá Vatikaninu.

Sérstakur stýrihópur verkefnisins sem Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri skipaði fundaði 102 sinnum og viðurkennir hann að verkefnið hafi verið töluvert annasamara og umsvifameira en hann hefði átt von á. Þetta er meðal þess sem lesa má í svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur samkvæmt frétt RÚV um málið.