*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 15. apríl 2019 12:08

Of mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu?

Hagsjá Landsbankans bendir á að meðan eftirspurn sé eftir litlum íbúðum, séu þær sem verið að byggja of stórar og dýrar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagstofan hefur enn ekki birt upplýsingar um byggingu íbúðarhúsnæðis á síðasta ári. Upplýsingastreymi um byggingarstarfsemi hefur ekki batnað mikið í núverandi uppsveiflu og enn renna menn jafnt blint í sjóinn með byggingarmagn, staðsetningu og tegundir húsnæðis í byggingu. Samkvæmt nýjustu tölum frá 2017 var byrjað að byggja um 2.200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2017 og lokið við að byggja um 1.370 íbúðir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir einnig að Samtök iðnaðarins (SI) hafi um árabil talið íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í helstu byggðakjörnum landsins tvisvar á ári. Niðurstöður SI hafi á síðustu árum verið einu áreiðanlegu heimildirnar um byggingu íbúðarhúsnæðis en mikill skortur hafi verið á haldbærum opinberum upplýsingum.

„Nýjustu upplýsingar SI um byggingarmagn eru frá því í mars 2019. Samkvæmt þeim eru byggingar íbúðarhúsnæðis enn að aukast, en heldur hægir þó á vextinum. Þannig jókst fjöldi íbúða í byggingu sem eru fokheldar og lengra komnar um 12% frá síðustu mælingu í október 2018, en íbúðum sem ekki voru orðnar fokheldar fækkaði um 4%. Þetta bendir sterklega til þess að frekar sé verið að draga út starfsemi en hitt. Þessi þróun sést enn betur ef einungis er litið til byggingar á fjölbýli, en þar fjölgaði íbúðum sem voru fokheldar og lengra komnar um 24%, en íbúðum að fokheldu fækkaði um 12%. Það lítur því út fyrir að verkefni í fjölbýli fari síður af stað en verið hefur,“ segir jafnframt í Hagsjánni.

Lokið við byggingu 2.000 íbúða á ári

SI hafi jafnan birt spá um byggingarstarfsemi á næstu árum í tengslum við talningar sínar. Eins og gildi um talningarnar séu þetta einu haldbæru upplýsingarnar sem til eru um hversu mikið má ætla að komi inn á markað af íbúðum á næstu árum. Samkvæmt spá SI verði byrjað á örlítið færri íbúðum í ár en var 2018 en þeim fjölgi svo aftur 2020 og 2021. Fullbúnum íbúðum heldur hins vegar áfram að fjölga ár frá ári.

Á þessum sex árum (2016-2021) verði lokið við að byggja um 12.300 íbúðir, eða rúmlega 2.000 á ári að jafnaði. Í vetur hafi komið fram mat frá átakshópi ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðar um að óuppfyllt íbúðaþörf væri á bilinu 5-8 þúsund íbúðir. Á árunum 2019-2021 muni verða lokið við um 7.700 íbúðir samkvæmt spá SI og muni það að einhverju leyti slá á þessa þörf.

Sá vandi sé því augljóslega fyrir hendi að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé fyrst og fremst eftir litlum, ódýrum og einföldum íbúðum á meðan íbúðir sem séu í byggingu séu mun stærri og dýrari. Á árinu 2018 hafi nýjar seldar íbúðir verið að jafnaði um 103 m2 og sama staða hafi verið uppi varðandi nýjar seldar íbúðir fyrstu tvo mánuði ársins 2019. Þó meðaltal sé ekki einhlítur mælikvarði bendi þetta til þess að ekki sé verið að selja mikið af litlum nýjum íbúðum.

Nýjar íbúðir of stórar og dýrar

Loks segir í Hagsjánni að: „Samkvæmt nýlegri skýrslu starfshóps um lækkun þröskuldar ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað kom fram að algengt verð við kaup fyrstu íbúðar sé um 40 milljónir króna. Samkvæmt algengustu útlánareglum í dag kalla slík kaup á að kaupandi geti lagt fram 6 milljónir króna sem eigið fé. Í greiningu  sem Capacent gerði fyrir Reykjavíkurborg sl. vetur kom fram að um 60% leigjenda töldu að þeir hafi minna en 5 milljónir króna í eigið fé til kaupa á húsnæði.

Sé litið til þess að nú er verið að byggja þúsundir íbúða á höfuðborgarsvæðinu, að um 7.700 munu verða fullkláraðar í ár og á næstu tveimur árum og að þessar íbúðir séu væntanlega of stórar og dýrar til þess að leysa þann vanda sem fyrir er, þá er væntanlega vandi á höndum. Allar þær tillögur sem hafa verið lagðar fram til þess að leysa meintan vanda snúa í þá átt að það þurfi að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði. Það er því ákveðin hætta á því að framboð veigamikils hluta íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu geti orðið mun meira en eftirspurn á næstu árum.“

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá fasteignir
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is