Í viðtali við Gylfa Sigfússon, forstjóra Eimskips, í Viðskiptablaðinu er mikið fjallað um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins en félagið var endurreist á haustmánuðum 2009.

En félagið var líka endurskipulagt rekstrarlega en Gylfi segir í viðtalinu að reksturinn hafi verið orðinn of flókinn og viðamikill í ljósi mikilla fjárfestinga síðustu ár og margt af því hafi ekkert átt skylt við kjarnastarfsemi flutningastarfseminnar.

„Það var ekkert raunhæft í þeim áætlunum sem menn voru að byggja upp. Það að eiga t.d. frystigeymslu í miðjum Bandaríkjunum þar sem menn geyma frosnar vörur fyrir innanlandsmarkað hefur ekkert með vöruflutninga á sjó að gera,“ segir Gylfi.

„Við eigum og rekum frystigeymslur í dag sem við áttum áður, en þær geymslur tengjast okkar viðskiptahugmynd. Í Hollandi vorum við komnir með 12 geymslur en aðeins ein þeirra tengdist viðskiptahugmynd okkar. Þá voru menn að reyna að semja við bændur þar í landi um geymslu á búvörum. Það hefur bara ekkert með skipafélagið að gera. Þess vegna var enginn sársauki fólginn í því að skera þetta allt niður og selja.“

Gylfi segir að þessar aðgerðir hafi gengið mjög vel í starfsmenn Eimskips enda hefði mörgum þeirra fundist þeir vera utanveltu þegar félagið var að stækka sem mest árin þar á undan.

„Það var ekki verið að kaupa gáma, flutningabíla, lyftara og önnur tæki svo lítið var um fjárfestingar sem lutu að uppbyggingu hér á landi,“ segir Gylfi.

„Það hefur tekið um tvö ár að ná upp móralnum í fyrirtækinu og sýna starfsmönnum að það tilheyri aftur skipafélaginu Eimskip. Við finnum það að andinn í fyrirtækinu er góður og að stefnumótunarvinnan sem unnin hefur verið með starfsmönnum félagsins hefur fært okkur fram á veginn. Starfsmenn kunna því vel að fá gamla fyrirtækið sitt aftur.“

Þá segir Gylfi að fleiri en starfsmenn hafi kunnað að meta endurreisn Eimskips með gamla hættinum. Traust viðskiptasambönd við birgja víða um heim hafi komið sér vel enda hafi stjórnendur félagsins farið í kerfisbundnar heimsóknir til þeirra til að upplýsa um gang mála.

„Þeir voru álíka hneykslaðir og við á því hvernig fyrirtækið hafði breyst síðustu árin þar á undan og stóðu með okkur þar sem þeir þekktu hvernig félagið starfaði áður og söknuðu fyrri tíma,“ segir Gylfi.

„Þetta varð til þess að við héldum okkar gjaldfrestum og í sumum tilfellum hagstæðari verði vegna fyrri sögu Eimskips. Þeir sögðu endurtekið „mikið er gott að fá aftur gamla góða Eimskip“ og voru þess vegna tilbúnir að hjálpa okkur í gegnum þetta. Í mörgum tilvikum var um að ræða birgja sem við höfðum verslað við í 50-60 ár.“

Nánar er rætt við Gylfa í Viðskiptablaðinu. Sem fyrr segir fer Gylfi nokkuð ítarlega yfir endurskipulagninguna og aðdraganda hennar, rekstrarlega endurskipulagningu, framtíðarhorfur félagsins, aðstæðurnar í viðskiptalífinu hér á landi og loks nýlegt strand Goðafoss í Noregi. Viðtalið er fyrsta blaðaviðtalið sem Gylfi veitir eftir að félagið var endurreist.