Svo virðist sem evrópska hlutabréfamarkaðnum geðjist ekki að örvunaraðgerðum þeim sem bandaríski seðlabankinn kynnti í gær eða öllu heldur að þeirri drungalegu mynd af stöðu heimshagkerfisins ssem bankinn kynnti.

Bankinn hyggst kaupa ríkisskuldabréf fyrir 400 milljarða dala á næstu níu mánuðum - aðgerð sem nefnd er Operation Twist - auk þess sem stýrivextir voru látnir liggja kyrrir, sem reyndar kom engum á óvart.

Það sem af er degi hafa allar evrópskar hlutabréfavísitölur fallið allhressilega og þar með tekið við af þeim asísku sem féllu rækilega í nótt. Þá hafa fréttir af því að hægja sé tekið á kínverska hagkerfinu farið illa í markaðinn og sem dæmi má nefna að Hang Seng vísitalan í Hong Kong féll um 5,05% í nótt.

FTSE hefur fallið um 3,23% það sem af er degi, DAX um 3,56% og CAC um 3,47%. Í Stokkhólmi hefur OMXS30 fallið um 3,07%.

MIB í Mílanó hefur lækkað um 3% og Ibex35 í Madrid um 3,5%.