Forsvarsmenn 65% fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar telja að skattsvik skekki samkeppni í þeirri grein ferðaþjónustu sem fyrirtæki þeirra starfa í, samkvæmt nýrri skýrslu Rannsóknastofnunar atvinnulífsins á Bifröst um umfang skattsvika og leiðir til úrbóta.

Niðurstöður skýrslunnar eru byggðar á könnun Árna Sverris Hafsteinssonar og Jóns Bjarna Steinssonar, sérfræðinga hjá Rannsóknastofnun atvinnulífsins á Bifröst. Þeir Árni og Jón kynn niðurstöðurnar á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í dag.

Í könnuninni var m.a. spurt hvort fólk teldi að umtalsverð skattsvik ættu sér stað í ferðaþjónustu á Íslandi. Tveir þriðju þátttakenda eða 67% þeirra sem svöruðu voru sammála því eða mjög sammála.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, segir í samtali við Morgunblaðið þetta sýna að innan greinarinnar verði menn varir við að mikil skattsvik bjagi samkeppnisstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Hann bendir sérstakslega á virðisaukaskattskerfið. Munurinn á almennum virðisaukaskatti hér (25,5%) og lægra virðisaukaskattþrepinu (7%) væri 18,5%. Hvergi annars staðar í Evrópu byggi ferðaþjónusta við svo mikinn mun á virðisaukaskattþrepum. Undir lægra þrepið fellur m.a. gisting og sala veitingahúsa á tilreiddum mat og þjónustu. Þar liggi hvatinn til úrbóta.