Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag hafa orðið miklar breytingar í Vatíkanbanka en Frans páfi hyggst fækka viðskiptavinum og einbeita sér meira að því að styrkja góðgerðarmál.

Þetta hefur bitnað á tekjum bankans, en hagnaður bankans fyrir árið 2013 nam 2,9 milljónum evra, eða um 450 milljónum króna, í samanburði við 86,6 milljónir evra, eða um 13,5 milljarðar króna, árið 2012. Þetta skýrist að mestu leyti af því að bankinn hætti viðskiptum við 3000 viðskiptavini. Talið er að ef bankinn hefði ekki gert þetta hefði hagnaður fyrir árið 2013 verið um 70 milljónir evra, eða um 10 milljarðar króna.

Frans páfi hét því að eyða spillingu úr bankanum og að endurskipuleggja bankann í ljósi þess að bankinn var sakaður um peningaþvott og fyrir það að leyfa hverjum sem er, jafnvel glæpamönnum, að eiga bankareikning.