Fasteignafélagið Vatn og land sem á fjölda lóða og fasteigna í miðborginni hefur tapað háum fjárhæðum á gengishruni Sjælsö Gruppen, stærsta fasteignafélagi Danmerkur. Þegar Vatn og land var í eigu Björgólfsfeðga og hét Samson Properties keypti það hlut í Sjælsö Gruppen, ásamt Straumi Burðarási og fleiri fjárfestum á 230 danskar krónur á hlut. Gengið, sem er bókfært á markaðsvirði í efnahagsreikningi Vatns og lands, stendur nú í rétt rúmri 1,30 dönskum krónum á hlut.

Vatn og land á hlutinn í Sjælsö Gruppen í gegnum eignarhaldsfélagið SG Nord.

Hlutabréf Sjælsö Gruppen eru skráð á markað í Danmörku.

Sjælsö Gruppen fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í hittifyrra og kom danski bankinn FIH ásamt öðrum að henni. Fasteignafélagið sem áður var í eigu Björgólfsfeðga tók jafnframt þátt í endurskipulagningunni og tilheyrandi hlutafjáraukningu.

Fram kom á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag að fasteignafélagið Vatn og land, meðal annars á lóðina sem fyrirhugað hefur verið að reisa nýjan Listaháskóla á í miðborginni síðastliðin þrjú ár, hafi tapað tæpum 470 milljónum króna í fyrra. Árið á undan nam tapið nálægt sjö milljörðum króna. Eigið fé fasteignafélagsins var neikvætt um tæpa 13,6 milljarða um síðustu áramót. Þá bætir ekki úr skák að stór kröfuhafi hefur gjaldfellt milljarðalán til félagsins.