*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 12. maí 2020 14:53

Mikið tekjufall og uppsagnir framundan

Fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum í ferðaþjónustu urðu fyrir meira en 75% tekjufalli í apríl 2020 samanborið við apríl 2019.

Ritstjórn
Samtök atvinnulífsins er staðsett í Húsi atvinnulífsins
Haraldur Guðjónsson

Fjögur af hverjum fimm ferðaþjónustufyrirtækjum og fimmtungur fyrirtækja í verslun og þjónustu urðu fyrir meira en 75% tekjufalli í á milli ára í apríl samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Flest fyrirtækin sjá fram á tekjufall, og hafa gripið til aðgerða, þar á meðal uppsagna, vegna kórónuveirufaraldursins, sem ríflega helmingur telur að standi yfir í ár eða lengur.

Tæplega 70% forsvarsmanna fyrirtækja sem svöruðu könnuninni sem gerð var fyrir Samtök Atvinnulífsins telja að tekjur fyrirtækja þeirra minnki milli apríl 2020 og apríl 2019. Allir forsvarsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu gera ráð fyrir minni tekjum milli ára í apríl. 

Flest fyrirtæki eða um þrjú af hverjum fjórum hafa gripið til aðgerða til að mæta áhrifum heimsfaraldursins. Þrjú af hverjum fjórum drógu úr starfshlutfalli starfsmanna og jafnmörg hafa dregið úr öðrum rekstrarkostnaði en launakostnaði. Helmingur fyrirtækja í könnunni stytti afgreiðslu- eða þjónustutíma og þriðjungur greip til uppsagna eða skertrar þjónustu. 

Um 6 þúsund hefur verið sagt upp meðal þeirra fyrirtækja sem svöruðu könnuninni. Miðað við svör forsvarsmanna má búast við frekari uppsögnum. Ætla má að fyrirhugaðar uppsagnir ná til 3,2% starfsmanna eða um 5.500 störf en flest þeirra eru í ferðaþjónustufyrirtækjum. 

Fjórðungur fyrirtækja telur að kórónukreppan standi í allt að eitt ár og 30% telja að hún muni vara jafnvel lengur. Einungis eitt af hverjum fimm telja að kreppan gangi yfir á skemur en fjórum mánuðum. 

Forsvarsmennirnir brugðust misvel í aðgerðapakka ríkisins vegna þess að sumar aðgerðirnar höfðu lítil áhrif á tiltekin fyrirtæki. Flestir forsvarsmenn telja að hlutastarfaleiðin og laun í sóttkví hafi gagnast mest þar sem þær aðgerðir tóku gildi strax. Sjá má viðbrögð forsvarsmannanna við aðgerðum stjórnvalda á myndinni hér fyrir neðan.