Hlutabréf ellefu fyrirtækja sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands hækkuðu í verði í viðskiptum dagsins, þar af bréf þriggja félaga um sex prósent eða meira. Bréf sex félaga lækkuðu í verði. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 2,4 milljörðum króna í 270 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 0,14% og stendur í 2.435 stigum.

Mest hækkuðu hlutabréf Eimskipafélags Íslands eða um 7,8% í 310 milljóna króna viðskiptum. Félagið sendi frá sér jákvæða afkomutilkynningu í gær. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi verði 14 til 15,5 milljónir evra, samanborið við 11,2 milljónir á sama tímabili fyrra árs.

Bréf Eimskips standa í 256 krónum hvert og hafa nær tvöfaldast frá upphafi október þegar þau stóðu í 132 krónum. Markaðsvirði Eimskips er um 43 milljarðar króna.

Næst mest hækkun var á bréfum Icelandair Group eða um 6,7% í 233 milljóna króna viðskiptum. Gengi hlutabréfanna hefur verið mjög sveiflukennt á undanförnum vikum. Bréf flugfélagsins byrjuðu að rjúka upp 6. nóvember þegar þau stóðu í 0,9 krónum. Þau náðu hápunkti í 1,84 krónum fyrr í mánuðinum en hafa tekið að lækka síðan – þrátt fyrir hækkun dagsins í dag – og standa í 1,59 krónum eftir lokun markaða.

Í dag bárust þær fregnir að sala Sýnar á óvirkum fjarskiptainnviðum til erlendra fjárfesta væri á lokametrunum en bréf Sýnar hækkuðu um sex prósent í 31 milljón króna viðskiptum. Bréfin standa í 39,1 krónu og hafa hækkað um 29% á síðustu þremur mánuðum.

Bréf VÍS hækkuðu um 1,2% og standa í 14,31 krónu en félagið birti jákvæða afkomutilkynningu í gær. Þar kemur fram að áætlaður hagnaður fyrir skatta verði um 1.150 milljónir króna en samkvæmt afkomuspá félagsins, sem birt var 22. október síðastliðinn, var gert ráð fyrir 390 milljóna króna hagnaði fyrir skatta.

Mest lækkuðu hlutabréf TM eða um tæplega eitt prósent í 170 milljóna króna viðskiptum. Bréfin standa í tæplega 48 krónum og hafa hækkað um ríflega þriðjung á síðustu þremur mánuðum.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa þokast niður á við

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 15,4 milljörðum króna í 98 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa á engum skuldabréfaflokki hækkaði en krafa 26 flokka lækkaði. Mest lækkaði krafa á óverðtryggð skuldabréf Reykjavíkurborgar sem eru á gjalddaga 2035 eða um 16 punkta. Krafan stendur í 3,82% en hún stóð í 4,2% í upphafi árs.

Næst mest lækkun var á verðtryggðum ríkisskuldabréfum sem eru á gjalddaga 2030 eða um ellefu punkta. Krafan stendur í 0,5% en stóð í ríflega 0,9% í upphafi árs. Það sem af er ári fór krafan lægst í septembermánuði er hún nam -0,22%.