Í síðustu viku skrifuðu fulltrúar tólf ríkja undir hinn svokallaða Fríverslunarsamning Kyrrahafsþjóða. Með samningnum eru tollar á fjölda vöruflokka felldir niður auk þess sem öðrum viðskiptahindrunum verður rutt úr vegi.

Nokkrar mikilvægar fríverslunarviðræður standa enn yfir og má þar nefna tvennar helstar. Í fyrsta lagi eru Evrópusambandið og Bandaríkin um þessar mundir að reyna að semja um svokallaðan TTIP-samning um aukið frelsi í viðskiptum. Í öðru lagi standa yfir viðræður Evrópusambandsins og 22 annarra landa víða um heim um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum, svokallaðar TiSA-viðræður.

Hafa átt óformlega fundi með ESB og Bandaríkjunum

Líkur eru á að samningur um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum myndi, eins og aðrir fríverslunarsamningar, bæta hag þeirra þjóða sem standa að TiSA-viðræðunum. Almennt eru fríverslunarsamningar taldir hafa jákvæð áhrif á utanríkisviðskipti og hagvöxt. Þannig hefur lækkun tolla í flestum ríkjum heims undanfarna áratugi haldist í hendur við verulega aukningu utanríkisviðskipta í heiminum.

Ísland er aðili að TiSA-viðræðunum og myndi því hafa beinan ábata af honum. Bættur hagur hjá viðskiptalöndum Íslands myndi einnig koma sér vel fyrir íslenska hagkerfið, meðal annars með því að ýta undir eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum. Þá hafa EFTA-ríkin átt óformlega fundi með fulltrúum Evrópusambandins og Bandaríkjanna til að fylgjast með gangi TTIP-viðræðnanna og lýsa yfir áhuga á að tengjast þeim. Hefð er fyrir því að EFTA-ríkin gangi í fótspor ESB í gerð fríverslunarsamninga.

Opnar tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að í TiSA-viðræðunum leggi Ísland áherslu á að tryggja sem best aðgang íslenskra fyrirtækja að mörkuðum TiSA-ríkjanna þannig að þau sitji við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra í nágrannaríkjum okkar. Þess sé vænst að með TiSA-samningnum megi draga úr viðskiptahindrunum og auka fyrirsjáanleika í rekstri íslenskra fyrirtækja erlendis.

„Samhliða sameiginlegum fundum allra TiSA-þátttakenda hefur íslenska samninganefndin þannig átt, og mun áfram eiga, tvíhliða fundi með samninganefndum þeirra ríkja sem ætla má að íslenskir þjónustuveitendur hafi helst hagsmuna að gæta, s.s. Bandaríkjanna, Kanada, Japans, Ástralíu og Mexíkó,“ segir Gunnar Bragi.

Ítarlega er fjallað um fríverslunarviðræður í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .