Fjöldi og hlutfall fyrirtækja á vanskilaskrá virðist hafa náð hámarki. Um 18% fyrirtækja eða um 6.500 fyrirtæki eru nú á vanskilaskrá. Gjaldþrotum og árangurslausum fjárnámum hefur fjölgað verulega á árinu 2011.

Þetta kemur fram í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í morgun.

Seðlabankinn segir að gjaldþrotatíðnin sé hin hæsta í áratugi. Hér sé líklega enn um að ræða eftirköst hrunsins frá 2008 frekar en að ný vandamál séu að koma upp í rekstri fyrirtækja.

„Í mörgum tilvikum er um að ræða fyrirtæki sem stunduðu ekki eiginlegan atvinnurekstur, heldur félög sem héldu utan um eignarhluti í öðrum fyrirtækjum,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

„Eignir þessara félaga eru oft á tíðum rýrar í dag og reksturinn ólífvænlegur. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja var í lok október rúmlega 64% af endurskipulagningarmálum fyrirtækja í viðskiptabönkunum lokið, um 18% voru í vinnslu og önnur 18% höfðu verið afgreidd frá lánanefndum. Málum fyrirtækja með fyrirgreiðslu undir 1 ma.kr. var lokið í tæplega 80% tilvika ef úrræðin voru önnur en „Beina brautin“. Aðeins rúmlega 40% af þeim málum sem féllu undir Beinu brautina var lokið.“

Þá kemur fram að sameiginlegt markmið þeirra aðila sem komu að Beinu brautinni var að tillögur að fjárhagslegri endurskipulagningu lægju fyrir ekki seinna en 1. júní 2011. Það hefur ekki orðið raunin.

„Í einhverjum tilvikum er vafalaust gagnaskorti frá fyrirtækjunum um að kenna. Áhyggjuefni er að í um helmingi tilvika, sem tillögur að endurskipulagningu hafa verið lagðar fram í Beinu brautinni, hafa þær enn ekki verið samþykktar,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

„Það vekur spurningar um hversu raunhæfar tillögur viðskiptabankanna að endurskipulagningunni eru. Aðeins um 43% af málum fyrirtækja með fyrirgreiðslu hærri en 1 ma.kr. var lokið.“

Þá segir Seðlabankinn að markviss endurskipulagning skulda lífvænlegra fyrirtækja sé nauðsynleg til að tryggja þeim eðlilegt starfsumhverfi. Hafa beri þó í huga að þetta sé vandasamt og oft flókið verk, þar sem vegast á hagsmunir kröfuhafa og skuldara.

„Lítils háttar fækkun á vanskilaskrá og veruleg fjölgun í gjaldþrotum og árangurslausum fjárnámum benda til slita á ólífvænlegum fyrirtækjum, sem er forsenda endurskipulagningar skulda fyrirtækja, þ.e. að ólífvænlegum fyrirtækjum verði slitið og skuldir lífvænlegra fyrirtækja verði endurskipulagðar,“ segir í skýrslunni.

„Líklegt er að þessi þróun haldi áfram næstu misserin, verði ytri aðstæður í fyrirtækjarekstri að mestu óbreyttar. Áfram muni draga úr vanskilum samfara aukinni endurskipulagningu útlána en tíðni gjaldþrota og árangurslausra fjárnáma haldist há enn um sinn.“

Þá kemur fram að fjórðungur fyrirtækjalána hjá stóru viðskiptabönkunum þremur sé enn í vanskilum m.v. bókfært virði og öll lán viðskiptavinar eru talin í vanskilum ef eitt lán er komið í vanskil (e. cross default). Þetta hlutfall hefur þó lækkað um nærri helming á fyrstu 9 mánuðum ársins.

„Skuldir íslenskra fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru þrátt fyrir endurskipulagningu og afskriftir enn með þeim hæstu meðal þróaðra ríkja,“ segir í skýrslunni.

„Þær eru nú um 210% af landsframleiðslu og hafa farið nokkuð hratt lækkandi frá bankahruninu er þær náðu hágildi í um 375%.8 Til lengri tíma litið er ljóst að núverandi skuldabyrði getur orðið mörgum fyrirtækjum þung byrði. Hér er um áhættuþátt að ræða sem fylgjast verður með. Ef fyrirtæki koma of skuldsett úr endurskipulagningunni kann það að verða dragbítur á eðlilega fjárfestingu þessara fyrirtækja til lengri tíma litið og hægja á efnahagsbatanum. Jafnframt kunna eignir bankanna að vera ofmetnar, sé skuldaþol fyrirtækja ofmetið við endurskipulagninguna.“

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)