Tilnefningarnefnd Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, leggur til að Ástvaldur Jóhannsson og Sigrún Hjartardóttir komi ný inn í stjórn félagsins í stað Þórðar Már Jóhannessonar, sem lét af störfum sem stjórnarformaður í byrjun árs, og Kristínar Guðmundsdóttur sem gaf ekki kost á sér.

Í skýrslu nefndarinnar segir að „óvenju mörg framboð“ hafi borist eða alls 22 talsins, þar með talin framboð núverandi þriggja stjórnarmanna sem gefa áfram kost á sér. Ekki er tekið fram hvort aðrir frambjóðendur en þeir sem nefndin lagði til hafi dregið framboð sín til baka. Því gæti farið svo að hluthafar Festi þurfi að velja úr fjölda frambjóðenda á aðalfundi félagsins sem fer fram þann 22. mars næstkomandi.

Í kjölfar mat nefndin að tólf framboð væru fremst í flokki að meðtöldum framboðum þeirra þriggja núverandi stjórnarmanna sem skiluðu framboðum. Nefndin fundaði síðan með þeim níu frambjóðendum, sem auk stjórnarmannanna þriggja, voru taldir uppfylla best kröfur um hæfni, þekkingu og reynslu sem nýst gæti í stjórninni.

Ástvaldur og Sigrún féllu best inn í mynd af nýrri stjórn

Þegar viðtölum nefndarinnar við frambjóðendur og þá stjórnarmenn sem gefa áfram kost á sér var lokið og var það samdóma álit nefndarmanna að gera tillögu um að Ástvaldur Jóhannsson og Sigrún Hjartardóttir féllu best inn í mynd af nýrri stjórn.

Ástvaldur Jóhannsson hefur starfað sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Controlant frá árinu 2017. Hann hefur áður gengt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Men & Mice, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Valitor og vann um tíma hjá Össuri. Ástvaldur hefur einnig setið í stjórn Marel frá 2014.

„Ástvaldur er strategískur og hefur mikla reynslu í að meta viðskiptatækifæri með samlegðaráhrif í huga. Hann er vanur breytingastjórnun, bæði til stækkunar og minnkunar, og nálgast verkefni út frá tæknigrunni sínum. Ástvaldur hefur mikla reynslu úr stórum, vel reknum alþjóðlegum fyrirtækjum bæði sem stjórnarmaður og sem stjórnandi. Nefndin skynjaði mikinn metnað hans fyrir stjórnarstarfi í Festi og telur að hann muni falla vel í hópinn,“ segir tilnefningarnefndin um Ástvald.

Sigrún Hjartardóttir er forstöðumaður fjár- og áhættustýringar hjá Icelandair Group. Sigrún kom til Icelandair frá Íslandsbanka þar sem hún starfaði frá árinu 2007, framan af við meðal annars ráðningar, fjárfestatengsl og stefnumótun en lengst af við fyrirtækjaráðgjöf eða frá ársbyrjun 2012. Í fyrirtækjaráðgjöf voru helstu verkefni fólgin í umsjón með skráningum fyrirtækja á markað, meðal annars N1 árið 2013. Sigrún situr í stjórn Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna, EFÍA.

„Sigrún hefur mikilvæga þekkingu, reynslu og hæfni á sviði fjármála og fyrirtækjaráðgjafar og myndi auka fjölbreytileika í stjórninni. Hún lýsir afstöðu sinni uppbyggilega og umbúðalaust. Sigrún hefur víðtæka reynslu af fyrirtækjaráðgjöf og fjármálum við krefjandi aðstæður. Hún er viðskiptafræðingur með meistarapróf í stjórnmálafræði. Nefndin telur að hún eigi eftir að breikka sýn og samfélagsvitund stjórnarinnar,“ skrifar nefndin.

Tilnefningarnefndin tók þó fram að allir frambjóðendurnir væru vel hæfir til stjórnarstarfa „og glímdi nefndin því við ánægjulegt og vandasamt verkefni“.

Tillaga nefndarinnar um stjórnarmenn:

  • Guðjón Reynisson, núverandi stjórnarformaður
  • Margrét Guðmundsdóttir, núverandi varaformaður stjórnar
  • Þórey G. Guðmundsdóttir, núverandi stjórnarmaður
  • Ástvaldur Jóhannsson
  • Sigrún Hjartardóttir

Í tilnefningarnefnd Festi sitja Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Tryggvi Pálsson og Margrét Guðmundsdóttir. Sigrún Ragna er formaður nefndarinnar.

Nýleg mál til marks um mikilvægi siðferðis og samfélagsvitundar

Frambjóðendur voru meðal annars spurðir hvort tengsl, fyrri störf eða annað í fari viðkomandi geti varpað skugga á orðspor fyrirtækisins. Við spurningalistann bættist einnig frá fyrra ári spurningar um reynslu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og UFS (e. ESG) og spurt var hvort viðkomandi eða félög á hans vegum væru eigi í dómsmálum eða í deilum við eftirlitsaðila sem geta haft áhrif á orðspor og almenningsálit.

„Festi og dótturfélögin hafa áunnið sér sterka, jákvæða ímynd. Það krefst árvekni að halda í þá eftirsóknarverðu stöðu á neytendamarkaði í kviku samfélagi. Afsögn stjórnarformanns og nýlegt dæmi um neikvæða umræðu um N1-Rafmagn eru til marks um mikilvægi kröfunnar um siðferði og samfélagsvitund,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndar.

Þá lagði stjórn Festi einnig fram tillögu að nýrri samþykkt til að „auka getu félagsins til þess að takast á við mál sem taka til orðspors æðstu stjórnenda og rekstraráhættu sem getur tengst því að orðspor þeirra bíði hnekki“.

Verði breytingin samþykkt áformar stjórnin að breyta starfsreglum stjórnar, setja stjórn sérstakar siðareglur og setja nýjar reglur um mat á hæfi stjórnarmanna og forstjóra orðsporsáhættu og hagsmunaárekstra. Framangreindar breytingar eiga að mynda heildstæða umgjörð um meðferð slíkra mála.

Leiðrétting: Þegar fréttin fór fyrst í loftið fylgdi mynd af Höllu Sigrúnu Hjartardóttur en ekki Sigrúnu Hjartardóttur með fréttinni. Blaðamaður biðst velvirðingar á þessum mistökum.