Sjónum hefur ekki verið beint að brotum sem fólust í stórum áhættuskuldbindingum banka og lánastofnana í aðdraganda bankahrunsins  í sama mæli og önnur brot, að mati Sigurveigar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra vettvangs- og verðbréfaeftirlitssviðs Fjármálaeftirlitsins (FME). Hún sagði á fundi með Unni Gunnarsdóttur, forstjóra FME, í morgun þar sem rannsóknir eftirlitsins á falli viðskiptabankanna þriggja voru kynntar, að þetta séu svo umfangsmikil brot að þau hefðu getað grafið undan fjármálalegum stöðugleika bankakerfisins.

Hún benti á að ef skuldbinding, s.s. lán, ábyrgð eða eignarhlutur, fer í 10% eða meira þá telst það til stórra áhættuskuldbindinga. Lántakandi og aðilar tengdir honum máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálastofnunarinnar.  Á fundinum komu fram dæmi um að menn og aðilar þeim tengdum hafi fengið lánað 52% og allt upp undir 126% af eiginfjárgrunni banka og lánafyrirtækis þegar mest var á árunum fyrir hrun.

„Ef búin er til flétta fyrirtækja og látið líta út fyrir að aðilar tengist ekki þá geta þeir komist fram hjá ákvæðinu. Ástæða lagaákvæðisins er eins og nafnið gefur til kynna stór áhætta. Þau geta stefnt fjármálafyrirtækinu eða lánastofnuninni í mikla hættu ef lántakandi eða aðilar tengdir honum fara í greiðsluþrot. Þetta getur verið verulega áhætta. Útlán eru helsta eign fjármálafyrirtækja og á svo litlum markaði sem Ísland er þá getur þetta haft víðtækar afleiðingar. Í raun smitað út frá sér. Þess vegna tölum við að þetta kunni að grafa undan fjármálalegum stöðugleika fjármálakerfisins í heild,“ sagði hún.