Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að mikil áhersla verði lögð á krónutöluhækkanir upp á tugi þúsunda frekar en prósentuhækkanir í komandi kjaraviðræðum.

Í samtali við DV segir Vilhjálmur að prósentuhækkanir geri það að verkum að þeir tekjuhæstu fái mun fleiri krónur í sitt umslag en þeir tekjulægri og því auki slíkar hækkanir einungis misrétti og ójöfnuð. Ekki sé hægt að fara með prósentur út í búð og versla.

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins hafa að undanförnu rætt opinberlega um mikilvægi hóflegra launahækkana í komandi kjarasamningum til að halda verðbólgu í skefjum. Vilhjálmur segir að um hræðsluáróður sé að ræða sem alltaf láti á sér kræla þegar eigi að semja fyrir íslenskt verkafólk. „Þeir segja ekki eitt einasta orð þegar stjórnendur og millistjórnendur hækkuðu um 40% árið 2013,“ segir Vilhjálmur í samtali við DV.